Vaxtasleggjan í langt sumarfrí
Útlit er fyrir litla, jafnvel enga, lækkun vaxta fram í ágúst, enda verðbólga og verðbólguvæntingar enn talsvert frá markmiði
Fyrir nokkrum mánuðum síðan var því velt upp hér að ef allt myndi ganga eftir gætu vextir verið komnir niður í 7% undir lok maímánaðar. Síðan þá hefur verðbólgan reynst treg til að þokast niður á við og verðbólguvæntingar sömuleiðis. Í ofanálag er krafturinn í hagkerfinu enn talsverður og þegar allt kemur til alls má telja nær útilokað að vextir verði komnir niður í 7% eftir vaxtaákvörðun peningastefnunefndar í næstu viku. Líklegast verða litlar breytingar og nánast 50/50 hvort vextir lækki um 0,25 prósentur eða haldist óbreyttir í 7,75%. Undirritaður hallast frekar að því að vextir haldist óbreyttir.
Nefndin fær sitt 4% aðhald með óbreyttum vöxtum
Frá því að peningastefnunefnd hittist síðast í mars hefur verðbólga hækkað á ný upp í 4,2%. Það skýrist að hluta til af tilfallandi og síðbúnum páskaáhrifum en þrátt fyrir þau benda flestar spár til þess að verðbólgan muni hjaðna lítið í sumar. Greining Arion banka gerir til dæmis ráð fyrir 3,7% verðbólgu í ágúst. Verðbólguvæntingar eru að auki enn háar og með varfærnum forsendum um þróun (nánar tiltekið lækkun) þeirra verður aðhaldið, raunstýrivextir Seðlabankans, við 4% í ágúst ef vextir haldast óbreyttir. Ef sú sviðsmynd er skoðuð með stækkunargleri má sjá að raunvextir verða lítillega hærri en 4% í ágúst ef vextir verða óbreyttir. Nefndin mun því vafalaust íhuga vandlega að lækka vexti um 0,25 prósentur í næstu viku. Þá er erfitt að lesa úr þessari sviðsmynd mikla vissu fyrir myndarlegri, ef nokkurri, vaxtalækkun í ágúst.
Fínn gangur í hagkerfinu
Það er sama hvert er leitað að vísbendingum um almenna efnahagsþróun á Íslandi - nánast allar benda til þess að hagkerfið sé á ágætis siglingu: Atvinnuleysi er lítið og nokkuð stöðugt, velta með ágætum og innlend eftirspurn almennt sterk svo eitthvað sé nefnt. Leiðandi hagvísir Analytica, sem dregur saman ólíka mælikvarða, sýnir þetta og gott betur: Hagkerfið er heldur á uppleið og virðist vera nálægt jafnvægisvexti um þessar mundir. Það eitt og sér mun fá peningastefnunefnd til að hugsa sig tvisvar um hvort rétt sé að lækka vexti við núverandi aðstæður.
Launafíllinn í herberginu
Eins og hefur verið komið inn á hér, hér og hér er blákaldur veruleikinn sá að launahækkanir um þessar mundir, eins og frá landnámi, hafa verið mun meiri en samræmast 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Í mars hækkaði launavísitalan um 6,9% milli ára og á vafalaust þátt í að ágætis gangur virðist vera í einkaneyslu heimilanna, nokkuð sem peningastefnunefnd vakti sérstaklega athygli á í síðustu fundargerð sinni. Þetta er fíllinn í herberginu en fáir vekja athygli á honum, jafnvel þó að fjallað sé um að innlendar vörur hækki hraðar í verði en innfluttar. Hvort nefndin veki sérstaka athygli á þessari þróun mun koma í ljós en hún er án vafa meðvituð um að svo hraðar launahækkanir gera henni lífið erfitt fyrir.
Fá ríkisfjármálin pillu?
Annað sem er lítið að hjálpa peningastefnunni eru opinber fjármál eins og þau birtast í nýrri fjármálaáætlun, sem Alþingi á eftir að afgreiða. Líta má á aðhald ríkisfjármála frá ýmsum hliðum en það sem peningastefnunefnd horfir sérstaklega til er breyting á hagsveifluleiðréttum frumjöfnuði, eins gagnsætt og það hugtak er. Staðreyndin er sú að aðhald opinberra fjármála árið 2026, í fyrstu fjárlögum nýrrar ríkisstjórnar, er minna en hafði verið áætlað í núgildandi fjármálaáætlun. Það mun í sannleika sagt ekki hafa mikil áhrif eitt og sér á verðbólguþróun og í almennri umræðu um orsakir verðbólgu fá ríkisfjármál alltof mikið vægi. Það safnast þó þegar saman kemur og fyrir verðbólguvæntingar er þessi breyting óheppileg og því mögulegt að nefndin veki máls á því.
Væntingar um litlar og hægfara vaxtalækkanir
Hvort sem vextir lækki lítillega eða standi í stað núna í maí benda væntingar til þess að það sama verði uppi á teningnum næstu misseri. Þegar talað er um misseri í þessu samhengi er átt við misseri sem sex mánaða tímabil í fleirtölu. Miðað við framvirka vexti á fjármálamarkaði munu vextir aðeins lækka um ríflega 1 prósentustig næstu þrjú ár, nokkuð hægar en vextir ríkisskuldabréfa gáfu til kynna undir lok síðasta árs. Þessar afar varfærnu vaxtalækkunarvæntingar eru önnur hlið á vandamálinu sem háar verðbólguvæntingar eru. Ef þær lækka niður í markmið gætu vextir komið hratt niður, en gerist það án þess að verðbólgan sjálf komist sannfærandi niður í 2,5% verðbólgumarkmið? Það er í það minnsta erfitt að teikna það upp og líklegt að ekki verði tekin hröð skref í átt að ásættanlegu vaxtastigi, sem er kannski 4-5%, fyrr en verðbólgan verður fyrir alvöru komin niður í markmið. Hvenær sem það svo verður, en vonandi sem allra fyrst.