Góðir kjarasamningar?
Vinnumarkaðslíkanið er hannað þannig að laun hækka of mikið sem leiðir til of mikillar verðbólgu og hás vaxtastigs. Þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það áfram með óbreyttu líkani
Þessi grein birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 29. janúar. Hún birtist hér óbreytt en til viðbótar er stutt myndasaga til nánari skýringa.
Frá því að stefnumarkandi kjarasamningar á almennum vinnumarkaði voru undirritaðir á síðasta ári hefur almennt verið vel af þeim látið. Það kom því eflaust einhverjum á óvart þegar öndverð sjónarmið heyrðust í hlaðvarpi Þjóðmála á dögunum og m.a. talað um „skipbrot í nálgun við kjarasamninga.“
En eru kjarasamningarnir raunverulega góðir? Það fer eftir því hvernig á þá er litið og verður ekki fyllilega svarað fyrr en eftir á. Til að einfalda slíkt mat er þó hægt að skoða hvort þeir standist það einfalda frumskilyrði að standast 2,5% verðbólgumarkmiðið. Verðbólga við markmið stuðlar að lægra vaxtastigi og stöðugara gengi. Svo ekki sé minnst á þýðingu þess fyrir samkeppnishæfni þjóðarbúsins. Allir ættu vera sammála um slíkt skilyrði.
Til að það gangi má hækkun launakostnaðar umfram verðbólgumarkmið almennt ekki vera meiri en vöxtur framleiðni í hagkerfinu, ellegar væri hægt að hækka laun takmarkalaust. Vissulega skipta aðrir þættir máli líkt og viðskiptakjör, sem sveiflast, og hlutur launa í verðmætasköpun, sem er fremur hár, en sáralitlu samanborið við framleiðni. Framleiðni ræður kaupmætti og án kaupmáttar eru launahækkanir til einskis.
Meðfylgjandi mynd sýnir að launahækkanir á Íslandi hafa undantekningalaust verið umfram svigrúm síðustu 30 ár. Að meðaltali hafa launahækkanir verið ríflega 2% meiri en sem stenst verðbólgumarkmið, sem hefur fyrirsjáanlega leitt til þess að að verðbólga hefur verið 2% meiri en sem nemur verðbólgumarkmiði.
Hvað með núna? Í nýjustu spá Seðlabankans er gert ráð fyrir 5% hækkun launa að meðaltali á gildistíma kjarasamninganna. Það eru þó almennt minni launahækkanir en við höfum séð síðustu áratugi, líkt og myndin sýnir. Aftur á móti er spáð veikum framleiðnivexti og verður niðurstaðan því sú sama og vanalega: 2% meiri launahækkanir en það sem stenst verðbólgumarkmið. Rétt er að nefna að vísbendingar eru um að framleiðni síðasta árs hafi verið vanmetin og þá verður seint sagt að Seðlabankinn sé bjartsýnn á framleiðnivöxtí og þó svo væri þá er þessi 2% framleiðinivöxtur á ári, sem upp á vantar, vöxtur sem þekkist vart í þróuðum hagkerfum á okkar tímum.
Niðurstaðan er því sú að kjarasamningarnir eru mögulega betri en oft áður, og þeir eru sannarlega til þess fallnir að stuðla að minni verðbólgu, en 2,5% verðbólga verður krefjandi við núverandi aðstæður.
Hefði verið hægt að gera betur? Núverandi vinnumarkaðslíkan býður varla upp á aðra niðurstöðu. Kerfið er einfaldlega hannað þannig að laun hækka of mikið sem leiðir sífellt til of mikillar verðbólgu og óþolandi vaxtastigs. Ef ekkert breytist munu laun halda áfram að hækka of mikið sem mun, líkt og alltaf, leiða til áframhaldandi verðbólgu, hárra vaxta og lakari samkeppnishæfni. Sé stjórnmálamönnum alvara með tali um efnahagslegan stöðugleika og lágt vaxtastig þá ganga þeir tafarlaust í að breyta þessu í eitt skipti fyrir öll.
Ítarefni: Stutt myndasaga
Þeir kjarasamningar sem vísað er til hér að framan fela í sér 23.750-27.859 kr. hækkun taxta á ári sem þýðir 5,9% hækkun 2024 en svo stiglækkandi niður í 5%. Almennar hækkanir verða aftur á móti 3,25%-3,5%. Hvers vegna er Seðlabankinn að spá launahækkunum sem eru miklu nær taxtahækkunum?
Svarið er að reynslan er sú að taxtahækkanir hafa á endanum farið nánast að fullu út í laun sem eru hærri en taxtar. Næsta mynd sýnir það svo ekki verður um villst. Með öðrum orðum hækka laun þeirra sem semja um sín laun meira en kjarasamningsbundnar almennar hækkanir kveða á um og til lengdar álíka mikið og hjá þeim sem eru á taxta. Í daglegu tali kallast það launaskrið. Á þessu eru stundum undantekningar, eins og á tíma lífskjarasamninganna frá 2019 þar sem stjórnendur og sérfræðingar hækkuðu umtalsvert minna en verkafólk. Svo hefur verið áfram frá 2022 en í minna mæli og þá virðast launahækkanir annarra stétta verið þeim mun meiri.
Næsta mynd sýnir þróun launakostnaðar á hverja framleidda einingu, eða að teknu tillit til framleiðni, ásamt verðlagi. Eins og minnst var í greininni sveiflast þessar stærðir ekki nákvæmlega í takt milli einstakra ára vegna ýmissa breytinga í hagkerfinu, viðskiptakjörum og fleiri skammtímaþátta. Aftur á móti er engin tilviljun að stærðirnar fylgjast vel að. Þá er rétt að benda stérstaklega á að bilið þeirra á milli fyrir 2024 (miðað við spár og bráðabirgðatölur!) benda til þess að laun séu sögulega frekar há miðað við undirliggjandi stærðir.
Spárnar og bráðabirgðatölur eru hins vegar mjög svartsýnar á framleiðni, eins og var nýlega rakið hér. Við erum í raun að horfa á tímabil framleiðnivaxtar sem við höfum hugsanlega ekki séð síðan á 19.öld, að árunum eftir fjármálakreppuna undanskyldum. Segja má margt um það, meðal annars að til að kjarasamningarnir standist 2,5% verðbólgumarkmiðið verður framleiðnivöxtur að vera meiri en spár gera ráð fyrir.
Að lokum er ein gömul og góð sem ég setti inn á X/Twitter á síðasta ári. Mynd sem lýsir sambandi launa og verða í hnotskurn: Það er ekki þráðbeint og línulegt, en það er þó ekki tilviljun og hreinlega ekki þekkist að fólk bústi við álíka launahækkanir og við Íslendingar hafa búið við, samhliða lítilli verðbólgu.