Jæja, á núna að gera eitthvað í þessu?
Nýir kjarasamningar kennara virðast hafa hrist í veikum stoðum stöðugleika á vinnumarkaði og áframhaldandi höfrungahlaup teiknast upp á meðan blekið þornar. Vinnumarkaðslíkanið er löngu úr sér gengið.
Nýlega var fjallað um hér hvort að kjarasamningarnir sem undirritaðir voru fyrir sléttu ári séu góðir að því leyti að þeir stuðli að verðstöðugleika og ásættanlegu vaxtastigi. Óumdeilt og yfirlýst markmið. Þar kom fram að niðurstaðan væri í sjálfu sér allt í lagi, í sögulegu samhengi, en ekki góð. Allt benti til þess að samningarnir væru alveg á mörkunum að stuðla að markmiðunum og því lítið sem mætti út af bregða.
Í síðustu viku var svo samið við kennara. Án þess að rekja nákvæmlega hvað felst í þeim þá eru kennarar heilt yfir að fá meiri launahækkanir í þessari kjarasamningslotu en aðrir svo nokkru munar. Eins og var rakið í fyrri pistli eru skýr tengsl milli verðlags og launakostnaðar. Í einföldu máli má því segja að ef allir myndu fá sömu launahækkanir og kennarar væri Seðlabankanum mikill vandi á höndum að stuðla að verðstöðugleika nema með mjög háum vöxtum.
Mun það haldast að kennarar fá sérstakan díl?
Eins og ævinlega er það í sjálfu sér oft mjög málefnalegt og eðlilegt að ákveðnir hópar fái meiri launahækkanir en aðrir. Það hefur oft gerst en sagan hefur sýnt okkur að iðulega koma aðrir hópar á eftir og krefjast þess sama. Niðurstaðan er að allir eru álíka vel eða illa settir en greiða fyrir ómakið einhverja hæstu vexti í Evrópu og pirra sig á hækkun verðtryggðra lána og hækkun vöruverðs. Hið margfræga höfrungahlaup.
Fyrstu viðbrögð annarra stéttarfélaga benda til þess að kunnuglegt handrit sé að teiknast upp. Formaður næststærsta stéttarfélags landsins hefur sagt berum orðum að samningarnir kyndi undir ófrið á vinnumarkaði. Það var síðan varla búið að vaska upp eftir vöfflubaksturinn í Karphúsinu þegar sama stéttarfélag sagði upp kjarasamningi og benti á að óhjákvæmilegt sé að kjarasamningar kennara muni hafa áhrif á viðræðurnar framundan. Hér eru engin einsdæmi, því hefur jafnframt verið fleygt fram að þetta trufli alla kjarasamninga.
„En eitt er víst, að til framtíðar litið er þetta fullreynt. Þegar menn róa ekki í sömu átt en vilja fá ávinninginn af því sem aðrir skapa og meira en það, þá er það eitthvað sem aldrei getur gengið í íslensku samfélagi”, sagði formaður Starfsgreinasambandsins.
Snýst ekki um stéttir, persónur og leikendur - snýst um vont kerfi
Þetta er nefnilega fullreynt og það er hárrétt. Það snýst ekkert um kennara, þeir voru með réttu að sækja kjör sem hægt var að færa rök fyrir að forsendur voru fyrir. Hver sem er í þeirra stöðu hefði sóst eftir því, þó að leiðin hefði verið misjöfn eins og fólk er misjafnt. Það er að sama skapi eðlilegt að forsvarsmenn annarra stéttarfélaga, sem sömdu með hóflegri hætti en oft áður séu mjög hugsi. Svona hefur þetta verið eins í grundvallaratriðum um áratugaskeið óháð persónum og leikendum.
Vandamálið er ekki fólkið og hver á að hafa hvaða laun og fá hvaða kjarabætur hvenær. Vandamálið er að kerfið er hannað til þess að allir fá aðeins of miklar launahækkanir sem við greiðum öll fyrir með óstöðugleika og óþolandi vaxtastig. Hver er sönnun þess? Hljóta einhverjir að spyrja. Spurningunni má snúa við og spyrja: Hvernig er niðurstaðan endurtekið sú sama þó að tímarnir og fólkið breytist? Hvernig getur verið verið að það sé eitthvað annað en kerfið?
Vinnumarkaðslíkanið er eins og vandamál fangans. Það er okkur öllum í hag að launhækkanir séu mátulegar til að stuðla að lítilli verðbólgu. Hvatinn til þess að fara fram og sækja aðeins meira fyrir sig og sinn hóp er því hinsvegar yfirsterkari.
Kjörin til að stuðla að stöðugleika - mun stjórnin þá gera það sem þarf?
Í nafni stöðugleika er mikilvægt að forsætisráðherra hafi sagt að kennarar hafi verið teknir út fyrir sviga að þessu sinni. Enda var hún og ríkisstjórnin öll kjörin á forsendum þess að stuðla að efnahagslegum stöðugleika. En sagan hefur sýnt okkur að persónur og leikendur eru aukaatriði. Það er ekkert fyrirsjáanlegt sem mun stoppa aðra hópa, sem telja sig innilega eiga rétt á því sama eða meira, til að sækja það. Kannski mun það takast, það geta verið undantekningar á öllu í mannlegu samfélagi.
Grundvallarvandinn leysist ekki við yfirlýsingar heldur með breytingum á vinnulöggjöfinni sem er að stofninum til sú sama og var samþykkt 1938. Til dæmis þarf ríkissáttasemjari að fá meiri valdheimildir heldur en að boða fólk á fundi. Raunverulegt félagafrelsi hlýtur einnig að koma til álita. Það eru til fullt af hugmyndum og útfærslum, t.d. í skýrslu sem heildarsamtök á vinnumarkaði létu vinna árið 2016. Sú skýrslal sýnir hvernig Norðurlöndin hafa búið um hnútana, með prýðilegum árangri, og varpar ljósi á íslenska vinnumarkaðslíkanið er einstakt en ekki með jákvæðum formerkjum. Í glænýjum hagræðingartillögum sem ríkisstjórninni var afhent í gær er meðal annars lagt til að styrkja lagagrundvöll ríkissáttasemjara. Það er vonandi að því verði fylgt fast eftir og fái góðan hljómgrunn á 5. hæð á Hverfisgötu 2-4.
Eina sem hefur skort er pólitískur vilji til að gera alvöru breytingar, eða kannski skilningur á því að gagnrýni á hækkanir ákveðinna hópa, eins og kennara, snýst nákvæmlega ekkert um þá hópa. Nú er kominn tími til að breyta kerfinu í staðinn fyrir að vona að kerfið virki öðruvísi.
Að lokum má minna á eina gamla og góða mynd. Það nefnilega þekkist hvergi í heiminum að launahækkanir séu miklar og verðlag sé stöðugt. Það þekkist ekki heldur að verðbólga sé mikil og launahækkanir séu hófsamar. Hér eru engar tilviljanir.
Aðeins meira að lokum: Hagræðingartillögur ríkisstjórnarinnar
Í gær voru kynntar hagræðingartillögur hagræðingarhóps forsætisráðherra. Tillögurnar eru að mörgu leyti góðar og margt kemur skemmtilega á óvart. Það er þó tvennt sem gerir það að verkum að rétt er að bíða og sjá hvernig þetta mun allt líta út, t.d. þegar fjármálaáætlun verður kynnt. Annars vegar eru margir fuglar í skógi en ekki í hendi, eins og hugmyndir um að spara 6 ma.kr. á ári í opinberum innkaupum sem standa undir nálægt þriðjungi af árlegum sparnaði skv. tillögunum. Hins vegar eru vandi pólitíkurinnar og ríkisfjármálanna, sem fjallað var um í þessari greiningu, enn til staðar. Jafnvel þó að allar þær tillögur sem hafa verið metnar komi til framkvæmda á réttum tíma og heppnist fullkomlega þarf enn miklu meira til svo að ríkisstjórnin geti hrint áherslum sínum í framkvæmd og snúið við afkomu ríkissjóðs. Í þessu samhengi má benda á að hagræðingin verður í mesta lagi um 20 ma.kr. á ári. Til samanburðar voru aðhaldsaðgerðir í fjárlögum 2025 um 28 ma.kr.
Læt uppfærða mynd úr fyrrgreindri greiningu fylgja með. Sjáum hvað setur - augun eru á fjármálaáætlun.
Góð samantekt og pælingar, Konni. Það stendur ekki á 5. hæð Borgartúni 35 að laga kjarasamningslíkanið. Aðeins á þessum nótum um Þjóðarsáttina 1990: „Það studdi viðréttinguna að á þessum árum fékk hagfræðin loks að koma að samningsborðinu sem fullgildur þátttakandi; hún, ásamt sameiginlegri glímu verkalýðsforingja og vinnuveitenda við ávöxtun fjármuna lífeyrissjóðanna, opnaði smátt og smátt augu manna fyrir því að lögmál efnahagslífs hér á landi væru ekki önnur en í nágrannalöndum okkar, að hin lífseiga hugmynd um "sérstöðu Íslands" væri á misskilningi byggð.“ - Frá kreppu til þjóðarsáttar
Fróðleg nálgun og vissulega umhugsunarvert - en fyrir það fyrsta er háskólamenntun á Íslandi langt um arðminni en í nágrannaríkjum (sem m.a. hvetur fólk til að flytja þangað), á sama tíma vantar háskólamenntað fólks hérlendis. Í öðru lagi er samfélagið að ganga í gegnum mjög neikvæðar breytingar þegar kemur að m.a. geðheilsu barna og stöðu barna almennt eins og sorgleg dæmi sýna. Hér spila kennarar alveg sésrstakt hlutverk. Í þriðja lagi - lífeyrisréttindi opinbera starfsmanna voru minnkuð og gerður samningur um að það yrði leiðrétt (eðlilega!). Við það hefur ekki enn verið staðið, tja fyrr en kannski í þessum samningum. Ef við viljum hafa fært fólk í opinberri þjónustu, er ekki hægt að bjóða því lægri laun og lægri lífeyrisgreiðslur! Hér eru engar tilviljanir!