Í gær fór undirritaður á næturvaktina á RÚV, sem í daglegu tali kallast Silfrið, að ræða vel heppnað útboð ríkisins á hlutum í Íslandsbanka. Þar var meðal annars vikið að fjárhagsstöðu heimilanna og innlánum þeirra. Fylgjum því stuttlega eftir.
Talsvert hefur verið rætt um að innlán heimila hafi vaxið mikið síðustu ár, um helming á þremur árum, og önnur hlið á þeim peningi er að peningamagn í umferð er að aukast. Minna fer hins vegar fyrir því hvaðan allir þessir peningar koma, eða nánar tiltekið þorsti heimilanna í innlán. Staðreyndin er sú að í tvo áratugi, fyrir utan sjálfa fjármálakreppuna, hafa innlán heimila fylgt ráðstöfunartekjum nokkuð vel, sem ætti í raun ekkert að koma á óvart. Til samanburðar hafa tekjur heimilanna vaxið um 40% síðustu þrjú ár og þar af var vöxtur staðgreiðsluskyldra tekna þeirra 8,5% á fyrsta ársfjórðungi. Tengslin eru þó vissulega ekki algild yfir stutt tímabil, enda ýmislegt annað en tekjur okkar sem ráða því hvað við eigum mikið inni á bankabók.
Ef við hins vegar skoðum hlutfallið milli ráðstöfunartekna og innlána, þá er hlutfallið merkilega stöðugt. Þó má merkja lítilsháttar leitni upp á við síðastliðinn áratug og eins og báðar myndirnar sýna hafa innlán vaxið nokkuð hraðar en tekjur landsmanna síðustu misseri. Þannig má leiða líkur að því að sparnaður heimila í innlánum hafi aukist vegna hárra vaxta. Eftir því sem vextir hins vegar lækka (ef þeir lækka mikið meira) má spyrja hvort að þeir tugir milljarða finni annan farveg í hlutabréfum, skuldabréfum og fasteignum. Eða finni sér farveg í gegnum kreditkort landsmanna.
Þannig að: Miklar launahækkanir, hagvöxtur og tekjuvöxtur heimila eykur eftirspurn þeirra eftir peningum svo að peningamagn í umferð eykst. Er ekki verðbólga alltaf peningalegt fyrirbæri? Sem í ljósi framangreinds á rætur sínar í alltof miklu launahækkunum, sem hefur verið rakið hér, hér og hér .
Við fáum vaxtaákvörðun á morgun. Líkurnar eru óbreyttum vöxtum í vil þó að ákvörðunin sé tvísýn. Hvað sem líður niðurstöðunni sýnir hraður vöxtur tekna, sem birtist í hröðum vexti innlána, hvers vegna vextir eru enn háir og verða líklega áfram um sinn.
Góðar pælingar