Gengur jafnan upp?
Ríkisstjórnin ætlar að ráðast í metnaðarfull verkefni en á sama tíma snúa við afkomu ríkissjóðs án þess að hækka skatta. Hvernig mun það ganga upp?
Fyrir rúmum 14 mánuðum síðan sendi Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, þá fjármála- og efnahagsráðherra, mér skilaboð og vildi ræða við mig um húsnæðismarkaðinn. Ég varð að sjálfsögðu við því en áttaði mig síðar á að ég hafði verið plataður í atvinnuviðtal. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og hraun um koppagrundir. Ég kynntist þremur gjörólíkum og mögnuðum ráðuneytum og kvaddi það síðasta á vetrarsólstöðum. Í fyrsta sinn í áratug er það því ekki starf mitt að fylgjast með, greina og skrifa um íslensk efnahagsmál í víðu samhengi. Áhuginn er enn mikill, ég fylgist ágætlega með og því hyggst ég halda áfram að gera það sem ég hef gert síðustu ár í einhverri mynd á þessum vettvangi. Undanfarið ár hafa pólitíkín og ríkisfjármálin fyrst og fremst átt hug minn og því augljóst fyrsta verkefni að skoða hvað ný ríkisstjórn þýðir fyrir ríkisfjármálin. Eða kannski frekar hvað ríkisfjármálin þýða fyrir ríkisstjórnina?
Í hnotskurn
Ríkisstjórnin ætlar að bæta afkomu ríkissjóðs á sama tíma og ráðast á í kostnaðarsöm verkefni, án teljanlegra skattahækkana.
Varfærið mat gefur að stefnuyfirlýsingin kosti 77 milljarða króna en óvissan er mikil. Ef samhliða á að reka ríkissjóð með afgangi þarf að óbreyttu hagræðingu sem nemur um 120 milljörðum króna.
Ríkisstjórnin hefur verið skýr um að staða efnahagsmála ráði því hvað verður gert en á móti má spyrja hvort væntingar kjósenda liggi þar. Þá er vandséð hvernig er hægt að hagræða fyrir fyrrgreindar upphæðir án þess ríkið hætti að sinna verkefnum.
Ný andlit - gömul verkefni
Hjá fráfarandi ríkisstjórn var forgangsmál að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta, meðal annars með aðhaldi í ríkisfjármálum. Því miðaði ágætlega þar sem verðbólga hefur minnkað um meira en helming og vextir eru teknir að lækka. Til allrar hamingju hefur ný ríkisstjórn verið skýr um að halda þessu áfram og hefur það meðal annars birst í málflutningi forsætisráðherra sem margítrekar að áður en ráðist sé í kostnaðarsöm verkefni þurfi að ná eðlilegu vaxtastigi og að ríkisfjármálin megi ekki vera þensluhvetjandi.
Þegar ríkið er rekið með halla líkt og nú er afar takmarkað svigrúm til þess að gefa í og setja ný mál á dagskrá. Markmiðið virðist nokkuð skýrt: Fjárlög skuli vera hallalaus innan tíðar, sem gerir svigrúmið til þess að ráðast í ný verkefni enn takmarkaðra en ella. Samkvæmt fjárlögum í ár verður 63 milljarða króna halli á ríkissjóði. Reynslan hefur rækilega kennt okkur að niðurstaðan getur orðið allt önnur, en þegar það hægir á hagkerfinu og atvinnuleysi er hverfandi er hæpið að treysta alfarið á hagvöxt til þess að bæta afkomuna um slíkar fjárhæðir.
Þrátt fyrir hallarekstur og að búið sé að útiloka skattahækkanir nema í nokkuð sértækum tilvikum er búið að setja fjölda mála á dagskrá sem kosta talsverða fjármuni. Samgöngu- og sveitastjórnarráðherra hefur sem dæmi sett jarðgangagerð í forgang, sem er ekki gert ráð fyrir í fjármálaáætlun. Þau jarðgöng sem eru að óbreyttu fyrst á dagskrá kosta að líkindum meira en 50 milljarða króna á verðlagi dagsins í dag, jafnvel mun meira.
Hvað kostar stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar?
Það er hægara sagt en gert að setja verðmiða á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það er engu að síður mjög mikilvægt fyrir samhengi hlutanna og til að átta sig á verkefni ríkisstjórnarinnar. Þar sem enginn virðist hafa ráðist í þetta kúnstuga verkefni ætla ég að gera heiðarlega tilraun til þess, sem má finna í meðfylgjandi töflu þar sem útgjalda- og tekjuaðgerðir í stefnuyfirlýsingunni eru lauslega metnar. Þessum tölum ber að taka með slatta af fyrirvara og víðum vikmörkum og eru athugasemdir vel þegnar. Öðru fremur má líta á þessa tilraun sem hvatningu til annarra að ráðast í þetta vandasama verkefni og gera enn betur.
Matið er tiltölulega varfærið og niðurstaðan er neikvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs upp á 77 milljarða króna. Taflan og skýringarnar í henni tala sínu máli. Athuga skal að þarna er tekið tillit til tekjuöflunar þannig að brúa þarf bilið með því að hætta að verja 77 milljörðum annars staðar eða treysta á mjög mikinn hagvöxt, þegar markmiðið er aftur á móti beinlínis að draga úr þenslu svo að lækka megi vexti. Til að gæta allrar sanngirni hefur ríkisstjórnin sem áður segir verið skýr um að staða efnahagsmála ráði því hvað verður gert en á móti má spyrja hvort væntingar kjósenda liggi þar.
Þetta er planið, en síðan gerist lífið. Ég ætla að gerast svo djafur að lofa því að upp komi mál sem bregðast þarf við með auknum útgjöldum. Það hefur verið reynslan hingað til eins og síðasta ríkisstjórn fékk rækilega að finna fyrir með heimsfaraldri og eldsumbrotum. Sumt er jafnvel nokkuð fyrirsjáanlegt eins og öryggis- og varnarmál þar sem útgjöld okkar eru pínlega lág eða 0,1% af landsframleiðslu. Framkvæmdastjóri NATO sagði nýlega að þau þurfi að vera hærri en 2% og Trump hefur talað um 5% (50-falt hærri en útgjöld okkar í dag).
Hvað þarf að brúa stórt bil með hagræðingu?
Á sama tíma og halli ríkissjóðs er nokkur og boðaðar hafa verið kostnaðarsamar aðgerðir virðist skýrt að ríkisstjórnin ætlar að snúa halla ríkissjóðs í afgang. Ætla má að það verði í síðasta lagi árið 2029, sem að óbreyttu verður síðasta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Vandi stjórnarinnar er hins vegar sá að nýjustu áætlanir ráðuneytisins gera ráð fyrir um 30 milljarða króna halla 2029 og er þá ekki tekið tillit til 9 milljarða óútfærðra afkomubætandi ráðstafana. Þegar við bætist svo stefnuyfirlýsingin upp á 77 milljarða króna er bilið sem þarf að brúa í hallalaus fjárlög orðið um 120 milljarðar króna. Það er ríflega 8% af útgjöldum ríkissjóðs eða 2,5% af landsframleiðslu. Fjárhæð sem samsvarar rekstri Landspítalans í heilt ár.
Eðlilega er mörgum spurningum ósvarað. Viðreisn, sem fer með stjórnartaumana í sjálfu fjármála- og efnahagsráðuneytinu, talaði nokkuð óljóst um hagræðingu í kosningabaráttunni. Nefnd var sameining stofnana, sem getur skilað hundruðum milljóna, jafnvel nokkrum milljörðum. Ljóst er að miklu, miklu meira þarf til. Sjálfur hjó ég eftir tvennu frá formanni flokksins í kosningabaráttunni sem kom smá spánskt fyrir sjónir. Annars vegar að spara með því að greiða niður erlendar skuldir. Erlendar skuldir ríkissjóðs bera reyndar lægri vexti en þær innlendu og til þess að greiða þær niður án innlendrar skuldsetningar á móti þarf að bæta afkomuna með því að ná fram afgangi á ríkissjóði. Ef það er ekki markmiðið er beinlínis verið að leggja til að dregið verði úr gjaldeyrisforða Seðlabankans, sem erlend lán ríkisins fjármagna að talsverðu leyti. Slíkt væri aftur á móti til þess fallið að draga úr gengisstöðugleika sem gengur beint gegn grundvallarstefnu Viðreisnar. Hins vegar betri lausafjárstýring ríkisstofnana nefnd sem leið til sparnaðar. Eflaust eru þar tækifæri til úrbóta en eftir því sem ég best veit hefur mikið áunnist í þessum efnum og hæpið að stórar fjárhæðir séu í spilinu. Hvað stendur þá til?
Hér má skjóta því inn að hagfræðingurinn er spenntur að fylgjast með kollega sínum og fyrrum kennara í fjármálaráðuneytinu. Kennara sem var framúrskarandi og með þeim betri sem ég hef haft. Eftirminnilegasta kennslustundin á námsárum mínum var þegar Daði Már tók heila kennslustund með nemendum til að leiða út með aðferðum leikjafræði hvað Ólafur Ragnar Grímsson myndi gera eftir að Icesave III var samþykkt á Alþingi. Nokkur óvissa ríkti um hvað forsetinn myndi gera en niðurstaða kennslustundarinnar var alveg skýr: Forsetinn myndi synja lögunum staðfestingar.
Þó að frumlegt og skemmtilegt samráð um hagsýni í ríkisrekstri sé góðra gjalda vert er pólitíski veruleikinn sá að það verður alltaf krefjandi að draga úr ríkisútgjöldum, ekki síst fyrir ríkisstjórn sem hallast heldur til vinstri og var heilt yfir kosin til valda á forsendum þess að auka ríkisumsvif frekar en að draga úr þeim. Að ná fram hagræðingu án þess að það bitni á verkefnum er langtímaverkefni - fugl í skógi en ekki í hendi. Það sem virkar augljóslega strax er að hætta verkefnum og því standa eftir tvær lykilspurningar: 1) Hefur ríkisstjórnin aga og kjark í að hætta verkefnum sem nema tugum milljarða króna? 2) Mun almenningur sýna ríkisstjórninni þolinmæði svo af því verði eða því að lítið verði úr metnaðarfullri stefnuyfirlýsingu?
Spennandi tímar
Svo það sé sagt verður mjög spennandi að sjá hvernig nýrri ríkisstjórn tekst til og þá sérstaklega við stjórn ríkisfjármálanna. Af framangreindu er ljóst að markið er sett hátt og mikið þarf til að jafnan gangi upp. Hér er að sjálfsögðu lítið nýtt á ferðinni að því leyti að stjórnarsáttmálar og stefnuyfirlýsingar innihalda oft stórar hugmyndir sem erfitt reynist að hrinda í framkvæmd.
Sagt er að pólitík sé list hins mögulega en má kannski segja að pólitík sé frekar list hins ómögulega þegar tugi milljarða eða meira vantar upp á í ríkisfjármálunum? Það verður spennandi að sjá og ég vona að valkyrjunum og föruneyti þeirra takist vel til, það skiptir okkur öll gríðarlega miklu máli.