Hvernig er staðan í hagkerfinu?
Er enn þensla eða er hagkerfið að kólna hratt? Flestar vísbendingar benda til að krafturinn sé meiri en margir halda þó erfitt sé að segja að hagkerfið sé á yfirsnúningi.
Síðustu misseri hefur umræða um efnahagsmál verið dálítið út og suður. Sumir segja allt vera á heljarþröm og að hagstjórnin sé í fullkomnum ólestri á meðan aðrir halda fram hinu gagnstæða. Sumir tala um að þensla sé enn í hagkerfinu, á meðan langt er síðan að því var haldi fram að hagkerfið sé farið að kólna hratt (t.d. af undirrituðum).
Hvað er þá satt og rétt í þessu? Ef við setjum til hliðar hvað háir vextir og viðvarandi verðbólga eru fullkomlega óþolandi þá hefur seiglan í hagkerfinu síðustu misseri verið með nokkrum ólíkindum. Það sem meira er þá sjást enn engin merki um alvöru kólnun. Flest bendir til þess að krafturinn sé meiri en spár og hagvaxtartölur gefa til kynna en þó er erfitt að segja að hagkerfið sé á yfirsnúningi.
Sönnunargagn 1: Lítið lát á innflutningi
Fyrir hagkerfið er vöruinnflutningur einn af kanarífuglunum í kolanámunni. Hann hefur gefið til kynna að lítið lát sé á nokkuð öflugri innlendri eftirspurn. Þá hefur innflutningur ýmiskonar neysluvarnings vaxið lítillega síðustu mánuði en aftur á móti var verulegur samdráttur í bílainnflutningi á síðasta ári, eftir mikinn vöxt árin á undan. Innflutningur fjárfestingavara er hins vegar í hæstu hæðum og hefur að nafnvirði aldrei verið jafn mikill og á síðasta ársfjórðungi - 43% vöxtur á milli ára.
Sönnunargagn 2: Ekkert lát á vexti kortaveltu
Þó að heimilin hafi dregið saman seglin í bílakaupum er annað sagt um aðra einkaneyslu. Þar hefur raunvöxtur innan- og utanlands verið meiri en greiningaraðilar virðast hafa gert ráð fyrir. Á sama tíma hefur verið góður gangur í kortaveltu erlendra ferðamanna og jukust þau um heil 20% á föstu gengi í desember. Heilt yfir hefur vöxtur kortaveltu á landinu verið á uppleið síðustu mánuði, þvert á það sem mætti búast við í alvöru kólnun.
Sönnunargagn 3: Engar vísbendingar um teljandi kólnun á vinnumarkaði
Skýrustu vísbendingarnar um litla kólnun má sjá á vinnumarkaði. Atvinnuleysi er enn frekar lítið og hefur nær ekkert aukist undanfarið, sem dæmi var skráð atvinnuleysi 3,8% í desember síðastliðnum., samanborið við 3,6% í desember 2023. Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar virðist ennfremur sem fjölgun heildarvinnustunda hafi verið næstum 5% á síðasta ári. Til að setja það í eitthvað samhengi þá myndi það þýða ríflega 6% hagvöxt miðað við meðalframleiðnivöxt. Vísbendingar eru um að skekkja sé í þeim tölum (vinnumarkaðsrannsókn), en þó ekki meiri en sú að vísbendingar um fjölgun starfa sjást einnig í öðrum tölum (skrárgögnum). Störfum fjölgaði um 2,3% á síðasta ári og hægði lítið, ef nokkuð, á árstaktinum síðustu mánuði ársins.
Sönnunargagn 4: Hagvöxtur virðist kerfisbundið vanmetinn
Frá árinu 2021 hefur hagvöxtur verið vanmetinn hvern einasta ársfjórðung, 12 ársfjórðunga í röð. Líkurnar á að hagvöxtur sé fyrir tilviljun ofmetin 12 ársfjórðunga í röð eru 0,5^12=0,02%. Því má slá því nokkuð föstu að hagvöxtur hafi verið kerfislega vanmetin síðustu ár. Miðað við sönnunargögn 1-3 og að samdráttur mældist samkvæmt fyrstu tölum síðasta árs virðist sem vanmat sé enn á ný uppi á teningnum.
Sönnunargagn 5: Spárnar fela í sér óútskýrt framleiðnihrun
Hagvaxtarspár fyrir árið 2024 gera ráð fyrir að hagvöxtur hafi verið í kringum 0%. Vegna kraftsins á vinnumarkaði og fjölgun starfa fela spárnar í sér að framleiðni hafiminnkað. Það getur gerst einstaka ár af ýmsum ástæðum, en það sem er óvenjulegt við stöðuna í dag er að ef spár reynast réttar virðist hafa orðið methrun í framleiðni á síðasta ári. Glöggir lesendur taka eftir að hér að neðan er ekki horft beinlínis á framleiðni, heldur vísbendingar um hana. Það orsakast af því að undirritaður hefur miklar efasemdir um áreiðanleika vinnumarkaðsrannsóknarinnar. Samkvæmt henni er myndin enn furðulegri og sýnir næstum 5% framleiðnisamdrátt sem væri langtum mesti samdrátturinn í að minnsta kosti 20 ár.
Þrátt fyrir allt þetta hefur enginn getað útskýrt með sannfærandi hætti hvers vegna framleiðni féll svona ótrúlega mikið á síðasta ári. Miðað við allt framangreint virðist blasa við að hagvöxtur hafi í reynd verið töluvert meiri á síðasta ári en spár og bráðabirgðatölur gefa til kynna. Besta gisk er um 2% hagvöxtur í stað 0%.
Og hvað með það?
Hvaða áhrif hefur það ef þetta reynist rétt?
Meiri undirliggjandi kraftur í hagkerfinu getur þýtt að spár fyrir yfirstandandi ár séu líka að vanmeta hagvöxt. Það þýðir að e.t.v. er meiri spenna í hagkerfinu en gert hefur verið ráð fyrir. Hvort tveggja gæti hægt á kærkomnu vaxtalækkunarferli Seðlabankans. Í staðinn getum við huggað okkur við að atvinnuástandið verður ekki sagt annað en mjög gott.
Meiri hagvöxtur væri líka mjög góð tíðindi fyrir ríkissjóð. Þrjú ár í röð reyndist afkoma ríkissjóðs 100 milljörðum króna betri en gert var ráð fyrir í fjárlögum, einkum vegna þess að hagvöxtur var umfram spár. Bráðabirgðatölur úr ríkisrekstrinum benda ekki til sviptinga af þeirri stærðargráðu, en þó eru alvöru fjárhæðir í húfi. Það væri kærkomið fyrir ríkisstjórnina miðað við þarsíðasta pistil. Eða hvað? Böggull á það til að fylgja skammrifi og mikill hagvöxtur hægir á lækkun vaxta, sem til stóð að „negla niður“. Það er því nokkuð vandlifað.
Við skulum þó spyrja að leikslokum. Raunvextir eru mjög háir og það er raunveruleg hætta á að þeir verði of háir of lengi sem kæmi í bakið á okkur á endanum. Það eru líka ætíð allskyns blikur á lofti. Óvissa er ekkert sérstaklega vaxandi í dag en hún er viðvarandi nú sem endranær.