Ofris krónunnar getur bara endað á einn veg
Krónan hefur aðeins tvisvar verið álíka sterk eða sterkari á þessari öld. Ekki spurning um hvort heldur hvernig, hvenær og hversu mikil óhjákvæmileg leiðrétting verður.
Undanfarin misseri hefur krónan styrkst nokkuð, um 5% gagnvart evru og 12% gagnvart Bandaríkjadal milli ára. Þessi styrking kemur ofan í hækkun raungengis krónunnar vegna þrálátrar verðbólgu hér á landi og meiri launahækkana en í okkar viðskiptalöndum. Staðan er orðin sú að raungengi krónunnar, sem er gengið á þann mælikvarða sem skiptir raunverulega máli fyrir efnahagslífið, er í hæstu hæðum hvernig sem á það er litið og hefur á þessari öld aðeins verið sterkara á tímabili árin 2005 og 2017. Miðað við mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á ytri stöðu þjóðarbúsins á síðasta ári er gengið nú um 15% sterkara en fæst staðist til lengra.
Þó að sagan kenni okkur að slík styrking endi ávallt á einn veg og þá með snarpri gengisveikingu hefur lítið farið fyrir umræðu um þessa stöðu. Vísbendingar um áhrifin sjást þó nú þegar í afkomu flugfélaga og hratt vaxandi vöruskiptahalla. Hugsanlega hefur skort á greiningar á stöðunni og hvort sem það er tilfellið eða ekki fer hér á eftir stutt greining.
(Nafn)gengi krónunnar hefur styrkst, en mestu munar um meiri verðbólgu og launahækkanir hér á landi
Eftir að áhrif heimsfaraldursins tóku að fjara út hefur krónan verið nokkuð sterk en í senn tiltölulega stöðug í samanburði við flesta gjaldmiðla. Þó hefur verðbólga hér verið sífellt meiri en í okkar viðskiptalöndum svo að raungengið hefur þokast upp á við. Upp á síðkastið hefur svo nafngengið styrkst sömuleiðis og á síðasta ársfjórðungi hækkaði raungengið um 4%. Miðað við nafngengið 24. júlí hefur það hækkað um 8% á árinu, sem í flestu samhengi telst mikið. Samanlagt skýrir nafngengið aðeins þriðjung af hækkun raungengisins frá árslokum 2021, en verðbólguþróun um tvo þriðju.
Ísland: Líklega dýrasta land í Evrópu
Ísland hefur lengi verið með dýrustu löndum heims en með því að krónan hefur styrkst samhliða meiri verðbólgu en víðast annars staðar sker Ísland sig meira úr en áður eins og neðangreind mynd sýnir. Merkilegt er að verðlag hér er nú 42% hærra en í Noregi sem er gríðarleg breyting á ríflega áratug - áður var verðlag í Noregi var töluvert hærra en hér. Almennt er samband milli hárrar framleiðni vinnuafls og hás verðlags (sterks raungengis) en það virðist ekki skýra þessa stöðu þar sem framleiðni hér á landi er sambærileg því sem gerist á Norðurlöndunum. Svo hátt verðlag hefur mismikil áhrif á atvinnugreinar, en við blasir t.d. að þetta hefur áhrif á neyslu ferðamanna.
Laun á Íslandi eru hærri en í Noregi
Verðlag á Íslandi er ekki einungis orðið miklu hærra en í Noregi, heldur eru laun mæld í evrum einnig orðin hærri og enn hærri en á hinum Norðurlöndunum eða í nokkru öðru Evrópuríki, nema hugsanlega í Sviss. Sem fyrr segir skýrir skyndilega framleiðniaukning þetta ekki sem þýðir einfaldlega að það er óhagstæðara en áður fyrir fyrirtæki í hvers kyns alþjóðlegri samkeppni að greiða íslensk laun. Vandséð er hvernig það muni að óbreyttu ekki hafa áhrif á útflutning landsins á næstu misserum.
Áfram viðskiptahalli í ár
Á sama tíma og sterk króna veikir útflutning eykur hún eftirspurn Íslendinga eftir vörum og þjónustu erlendis. Það birtist t.d. í því að hagkerfið verður rekið með halla á viðskiptum við útlönd í fyrirsjáanlegri framtíð. Athyglisvert er að raungengið er nú orðið um 4% hærra en gert var ráð fyrir á árinu í heild í nýlegri spá Seðlabankans. Verði það raunin er líklegt að viðskiptahallinn verði enn meiri en Seðlabankinn spáir í ár (3% af VLF). Vísbendingar sjást nú þegar um það en vöruskiptahallinn er nú þegar orðinn mun meiri en á síðustu árum. Ekki hafa verið birtar tölur um þjónustuviðskipti fyrir 2. ársfjórðung en sennilegt er að afgangur þeirra fari minnkandi við núverandi raungengi.
Fíllinn í krónuhagkerfinu eru lífeyrissjóðirnir - hvers vegna nýta þeir ekki sterka krónu?
Þrátt fyrir allt framangreint hefur fjármagnsflæðið með krónunni verið slíkt að hún hefur haldið áfram að styrkjast og gjaldeyriskaup Seðlabankans sem hófust að nýju í apríl. Erfitt er að benda á einn þátt í því samhengi en óhjákvæmilegt er þó að líta til þess að óvenju lítið hefur verið um gjaldeyriskaup lífeyrissjóða síðustu mánuði eins og sést á neðangreindri mynd. Í lífeyrissjóðunum er uppistaðan af sparnaði landsmanna, um tvöfald landsframleiðsla, og því hafa þeir áhrif á flestar hagstærðir.
Það kann að skjóta skökku við að lífeyrissjóðir nýti sér ekki sterka krónu í meira mæli um þessar mundir. Hluti af skýringunni er sennilega að lífeyrissjóðirnir virðast í sögulegu samhengi nálægt þaki erlendra eigna (53% í dag). Erlendar eignir þeirra í heild eru þó langt frá því þaki (40%) og því eflaust eitthvað meira sem býr þar að baki. Önnur skýring er að lífeyrissjóðir hafi nýlega fengið mikinn gjaldeyri í tengslum við uppgjör ÍL-sjóðs, en það breytir engu um að krónan er mjög sterk sem gerir erlendar fjárfestingar álitlegri en oft áður. Sem sjóðfélaga í nokkrum lífeyrissjóðum þykir undirrituðum þessi þróun í það minnsta sæta dálítilli furðu.
Er þetta eitthvað öðruvísi núna?
„This time is different“ er frasi sem er gjarnan notaður til að lýsa andrúmsloftinu sem myndast samhliða bólumyndun á mörkuðum. Eitthvað virðist örla á því í samhengi krónunnar eins og í nýrri frétt þar sem sagt er að fjölgun gjaldeyrisstoða geti stutt við hærra raungengi. Það er sannleikskorn í því en það þýðir ekki að hagkerfið geti verið í jafnvægi með raungengið í methæðum. Staðan er líka einfaldlega sú að viðskiptahallinn virðist hvergi á förum og hinar klassísku útflutningsgreinar, sjávarútvegur, ál og ferðaþjónusta, standa enn undir ⅔ af útflutningi.
Nær ómögulegt er að spá fyrir um hvað gerist næst. Ef það væri hægt væri undirritaður ekki að rita þessa greiningu heldur að halla sér aftur sem milljarðamæringur eftir gjaldeyrisviðskipti. Það verður þó að segjast eins og er að því fyrr sem krónan veikist, og staðan hreinlega leiðréttist, því betra (þó að það setji vonir um frekari vaxtalækkanir enn lengra inn í framtíðina, en það er önnur saga). Ef ástandið varir lengi getur það haft verulega skaðleg áhrif á útflutningsgreinar og jafnvægi þjóðarbúsins. Nema jú, ef þetta er eitthvað öðruvísi núna. John Maynard Keynes sagði að markaðir geti verið óskynsamir lengur en þú getur verið greiðslufær. Vonandi þarf ekki að hafa áhyggjur af því.